Sara Sif til liðs við Hauka

Handknattleiksdeild Hauka hefur gert samning við Söru Sif Helgadóttur um að hún leiki með Haukum næstu tvö árin. Sara Sif er 24 ára markvörður sem er uppalin í Fjölni en hefur leikið með Val síðustu þrjú tímabil og þar á undan var hún leikmaður Fram í þrjú tímabil en tvö af þeim lék hún með HK á láni.
Sara Sif hefur verið einn besti markmaður Olís deildar kvenna síðustu tímabil en á liðnu tímabili var Sara Sif í öðru sæti yfir bestu hlutfallsmarkvörslu deildarinnar með 38,8% markvörslu. Þá hefur Sara Sif verið í kringum íslenska landsliðið undanfarin ár og lék hún 2 leiki í febrúar og mars með liðinu gegn Svíþjóð þar sem Sara Sif var með rúmlega 30% markvörslu í fyrri leiknum á Ásvöllum.
Um komu Söru Sifjar hafði Díana þjálfari þetta að segja:„Það er mikilvægt að fá góðan markmann í okkar teymi. Haukar vilja taka næsta skref og þetta er liður í því að stækka og breikka hópinn okkar til að vera samkeppnishæf á öllum vígstöðum. Sara Sif mun passa vel inn í okkar hóp enda með mikinn metnað og því gaman að fá svona leikmann til okkar.“
Það er mikið gleðiefni að Sara Sif velji það að koma í Hauka og mun hún styrkja markvarðateymi og hóp liðsins til muna og hjálpa Haukaliðinu að keppa um alla þá titla sem í boði eru næstu tímabil. Það er því mikil tilhlökkun að sjá Söru Sif í Haukabúningnum eftir sumarið.

Velkomin á Ásvelli Sara Sif!