Meistaraflokkur karla í handbolta lék í gær, fimmtudag, sinn síðasta heimaleik og deildarleik fyrir jóla- og EM frí og voru mótherjarnir Íslandsmeistarar Fram. Fyrir leikinn voru Haukar í 1. sæti með 15 stig og Fram var í 3. sæti með 12 stig því var búist við hörkuleik og sérstaklega í ljósi þess að Fram vann fyrri leik liðanna í Olísdeildinni 18 – 17.
Frammarar mættu grimmir til leiks og komust fljótlega í 1 – 4 og áttu Haukastrákarnir í stökustu vændræðum með varnarleik gestanna sem og að ná takti í sinn varnarleik. Þegar hálfleikurinn var hálfnaður þá voru gestirnir komnir í 3 – 8. Ekki var seinni helmingur fyrri hálfleiks betri þar sem fyrrverandi Haukamaðurinn, Sveinn Þorgeirsson, gerði Haukastrákum lífið leitt sem og markmaðurinn Stephen Nielsen og voru Frammarar með gott forskot í hálfleik 12 – 6.
Seinni hálfleikur byrjaði allveg eins og þróunin hafði verið í fyrri hálfleiknum eða þannig að Haukar áttu í vandræðum með að koma boltanum í netið hjá Fram og þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður var staðan 9 – 15 gestunum í vil. En þá loksins tóku Haukastrákarnir við sér og vörnin fór að smella og fór það þannig að Haukastrákarnir unnu síðari helming seinni hálfleiks 11 – 2 og náðu að landa mikilvægum endurkomusigri 20 – 17.
Heilt yfir var þetta ekki góður leikur hjá Haukapiltum en það er víst dæmi um gott lið að ná að landa sigri þó að spilamennskan hafi ekki verið góð. Árni Steinn var markahæstur Haukanna í leiknum með 5 mörk og Þórður Rafn átti líka góða spretti og skoraði 4 mörk. Adam Haukur kom líka sterkur inn í vörnina í seinni hálfleik og vann ófáa bolta. Giedrius varði mest í marki Hauka eða 8 skot sem nægði honum til 40% markvörslu.
Næsti leikur Hauka er bikarleikur gegn Víkingi í Víkinni á sunnudag kl. 20:00. Fyrir jólafrí eiga strákarnir líka eftir að leika í deildarbikarnum sem leikinn verður 13. og 14. desember en tímasetning á leik Hauka sem og mótherji liggur ekki fyrir.
Áfram Haukar!