Haukastúlkur lönduðu um helgina öruggum og góðum sigri á Aftureldingu í N1-deild kvenna í handbolta. Lokatölur urðu 27-19 fyrir Haukum en í hálfleik var staðan 12-8 Haukastúlkum í vil. Eins og tölurnar gefa til kynna var sigurinn ekki í teljandi hættu og Haukaliðið töluvert betri aðilinn í leiknum.
Sigurinn var Haukastúlkum kærkominn í baráttunni um 8. sætið í deildinni, sem er jafnframt það síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Haukar hafa nú 10 stig í 8. sætinu en Selfoss kemur í humátt á eftir með 8 stig.
Einungis einn leikur er eftir í deildarkeppninni og mæta Haukar þá Fylki en Selfyssingar mæta Fram.