Sigur hjá stelpunum

HaukarHaukastúlkur lönduðu um helgina öruggum og góðum sigri á Aftureldingu í N1-deild kvenna í handbolta. Lokatölur urðu 27-19 fyrir Haukum en í hálfleik var staðan 12-8 Haukastúlkum í vil. Eins og tölurnar gefa til kynna var sigurinn ekki í teljandi hættu og Haukaliðið töluvert betri aðilinn í leiknum.

Sigurinn var Haukastúlkum kærkominn í baráttunni um 8. sætið í deildinni, sem er jafnframt það síðasta sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. Haukar hafa nú 10 stig í 8. sætinu en Selfoss kemur í humátt á eftir með 8 stig.

Einungis einn leikur er eftir í deildarkeppninni og mæta Haukar þá Fylki en Selfyssingar mæta Fram.

Sigur hjá stelpunum

Í kvöld mættu stelpurnar okkar liði Stjörnunnar í Mýrinni í Garðabæ. Það má segja að stelpurnar okkar hafi unnið leikinn á spilamennskunni í fyrri hálfleik en sá hálfleikur var án alls vafa besti hálfleikur stelpnanna í vetur.

Leikurinn var jafn til að byrja með og voru Stjörnustelpur yfir 6-5. Þá snéru stelpurnar okkar blaðinu við og komust í góða forystu. Í hálfleik var staðan 13-20 okkar stelpum í vil.

Það var eins og Stjörnustelpurnar hafi mætt til leiks eftir hálfleikinn. Þær spiluðu mun betri varnarleik og náðu að minnka muninn og komast svo yfir í stöðunni 26-25 þegar lítið var eftir. En okkar stelpur náðu að skora síðustu mörk leiksins og unnu að lokum dýrmætan sigur 29-28.

Stelpurnar okkar hafa því komist nær toppnum en nú eru þær aðeins 4 stigum á eftir Stjörnunni sem situr í 3. sæti deildarinnar. Stelpurnar okkar eiga leik til góða.

Næsti leikur stelpnanna er á laugardaginn þegar þær taka á móti Akureyri á Ásvöllum.

ÁFRAM HAUKAR!!