Við Haukamenn lönduðum tveimur deildarmeistaratitlum á Íslandsmóti skákfélaga sem lauk nú um helgina.
A-liðið vann yfirburðasigur í 2.deild, en úr skákunum 42 hlaut liðið 33 vinninga!
Lokastaðan í 2.deild:
1. Haukar-a 33 v.
2. Selfoss 23 v.
3. Bolungarvík 21 v.
4. TK 20,5 v. (8 stig)
5. KR-a 20,5 v. (6 stig)
6. Akranes 18 v.
7. TR-c 17 v.
8. Reykjanesbær 15 v
Ekki veit ég hvort þetta sé einsdæmi, en eins og glöggt má sjá, munar fleiri vinningum á fyrsta og öðru sæti, og á því öðru og neðsta!
Selfyssingar náðu að halda hinu mikilvæga 2.sæti og fylgja okkur því upp í 1.deild. Fyrir hönd Haukamanna vil ég óska þeim til hamingju með þennan frábæra árangur!
Ef A-liðið okkar var að standa sig vel, þá veit ég ekki alveg hvernig ég á að lýsa árangri B-liðsins, sem tefldi í 4.deild .Við vorum reyndar í góðum málum eftir fyrri hlutann og áttum, ásamt Fjölni, mestu möguleikana á því að komast upp. Að sjálfsögðu höfðu menn þó metnað í að vinna deildina og gerðu það með stæl þrátt fyrir að vera 1 vinningi fyrir neðan Fjölni þegar seinni hlutinn hófst. Það er skemmst frá því að segja, að úr skákunum 18 sem liðið tefldi um helgina, tapaðist einungis 1,5 vinningur! Við erum að tala um 16,5 vinning af 18 mögulegum gegn liðum í toppbaráttunni!!!
Þá stóð C-liðið sig mjög vel og var einungis 1 vinningi frá því að vinna bronsið! D-liðið á einnig hrós skilið fyrir sína framgöngu, og þá sérstaklega Rúnar Jónsson sem vann allar þær þrjár skákir sem hann tefldi. Alveg ljóst að skákir með lengri umhugsunartíma henta honum miklu betur!
Lokastaða efstu liða í 4.deild:
1. Haukar-b 35 v.
2. Fjölnir-a 33 v.
3. KR-b 25 v.
4. Haukar-c 24 v.
5. TV-b 23,5 (10 stig)
6. Skákfélag Sauðárkróks 23,5 v. (8 stig)
7. Reykjanesbær-b 23 v.
8. SA-d 22,5 v. (9 stig)
9. SA-e 22,5 v (8 stig)
10. Krókurinn 22 v.
16. Haukar-d 20 v.
Uppskeran, 4 deildarmeistaratitlar á 3 árum, verður að teljast frábær og í fullu samræmi við áhugann og uppganginn í félaginu. Ég vil nota tækifærið og gefa Heimi Ásgeirssyni mitt atkvæði, sem Haukamaður Íslandsmótsins. Heimir hefur verið hreint stórkostlegur, en hann hefur ekki enn tapað skák fyrir Hauka í deildakeppninni. Árangur hans á þessu tímabili var óaðfinnanlegur (sjö vinningar úr sjö skákum!). Annars eiga allir liðsmenn okkar Hauka heiðurinn af þessum árangri!
Svo stefnum við bara að því að vinna 3 deildir að ári !