„Spennandi hlutir í gangi“ – segir Jón Stefán

HaukarÍ dag birtum við seinni partinn af viðtali sem við tókum við Jón Stefán Jónsson þjálfara meistaraflokks kvenna í knattspyrnu. Jón Stefán tók við liðinu fyrir ári síðan og stjórnaði því liðinu í fyrsta sinn á liðnu tímabili. Þar enduðu Haukar í 6.-7. sæti með 17 stig í 1.deild kvenna A-riðli.

Við spurðum Jónsa, eins og hann er stundum kallaður hvort það verða miklar breytingar á hópnum frá síðasta sumri?

,,Það verða töluverðar breytingar á hópnum já af ýmsum orsökum, það eru einhverjir 8-9 leikmenn farnir úr hópnum ef við teljum frá 1. Janúar sl. og bætast þá við einhverja 8-9 leikmenn sem hættu eftir tímabilið 2011. Þannig að það er ekki ofsögum sagt að nýtt lið sé í mótun hjá okkur, en sem betur fer er það gott lið,“ sagði Jónsi en undirbúningstímabilið hjá kvennaliðinu hófst 15. október síðastliðin, liðið mun æfa fjórum sinnum í viku fyrir áramót og síðan bætist við ein æfing eftir áramót auk fjölda æfingaleikja,

,,Þar sem ætlunin er að liðið taki miklum framförum í vetur þarf því að vinna vel og mikið með stúlkunum á þeim tíma. Hið góða er að þær eru tilbúnar að leggja mikið á sig.“

Að lokum spurðum við Jón Stefán hvort Haukar séu í í samningaviðræðum við fleiri leikmenn en til gamans má geta að eins og greint var hér á heimasíðunni skrifuðu þrír nýir leikmenn við Hauka í vikunni, en þær komu allar frá Fylki.

,,Við höfum þegar gengið frá samningum við okkar leikmenn sem voru samningslausir eftir tímabilið, að mínu viti er það alltaf forgangsatriði að halda sínum leikmönnum áður en maður fer að skoða nýja leikmenn. Við erum svo í viðræðum við nokkra leikmenn, þeir kæmu allir til með að styrkja liðið mikið enda ætlunin að liðið verði sterkara næsta sumar en það var í sumar. Í stuttu máli sagt eru verulega spennandi hlutir í gangi. Þess utan sér hver heilvita maður að þegar lið missir 8-9 leikmenn á einu ári þá þarf að bæta við einhverju í staðin og það verður gert með því að fá leikmenn frá öðrum liðum og ekki síður með því að ná í leikmenn í okkar yngri flokka,“ sagði Jón Stefán að lokum.

Við þökkum honum fyrir að gefa sér tíma til að svara þessum spurningum, fleiri og ítarlegri fréttir um meistaraflokk kvenna verða birtar hér á síðunni, þegar það á við.