Spennandi tímar á Ásvöllum

Á undanförnum misserum hefur verið unnið að margvíslegum verkefnum hér á Ásvöllum. Nú styttist í að knatthöllin verði fullgerð, knattsalurinn verður tilbúinn fyrir áramót og reiknað er með að þjónustubygging knatthallar verði að fullu tekin í notkun á árinu 2025.  Þá styttist í að göngustígur, svokallaður Grísanesstígur, verði frágenginn frá nýrri brú við Ástjörn að Vallarhúsi við eldsneytisstöð N1.  Stígurinn verður malbikaður og upplýstur og má búast við að framkvæmdum verði lokið á haustdögum.  Þá hefur verið unnið að umhverfisbótum við gervigrasvöll félagsins, svæðið tyrft og snyrt og vökvunarbúnaði hefur verið  komið upp við gervigrasvöll félagsins.

Í sumar var unnið að  slípun og lökkun á handboltasal.  Vel hefur til tekist og þessa dagana stendur yfir Hafnarfjarðarmót í handknattleik hér á nýlökkuðu gólfinu.

Við tókum líka á móti um eitt þúsund starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar af fræðslu- og menntasviði, í liðinni viku, sem stilltu saman strengi sína fyrir komandi vetrarstarf í skólum og leikskólum bæjarins.

Í vor var farið í að fella visnuð tré við útmörk svæðisins og í haust munum við hefja gróðursetningu við göngustíginn við Ástjörn sem liggur næst íþróttasvæði félagsins.  Í dag fékk ég Ingibjörgu, garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar, og Steinar Björgvinsson, framkv.stj. Skógræktarfélags Hafnarfjarðar til skrafs og ráðleggingar um gróðursetningu á svæðinu.  Það skiptir okkar Hauka miklu málið að ganga vel um okkar svæði, hafa snyrtimennsku í forgrunni og ganga vel um þau mannvirki sem eru á svæði félagsins.

Það hefur verið líf og fjör á Ásvöllum á sumarnámskeiðum okkar þar sem hundruðir ungmenna hafa notið sín við margvíslega íþróttaiðkun sem og verkefni.

Nú styttist í nýtt tímabil í  handbolta, knattspyrnu, körfu, karate og leikjaskóla barnanna, auk þess sem almenningsdeildin, hlaupa- og gönguhópar, munu hefja haust og vetrarstarfið af fullum krafti.  Við erum full tilhlökkunar yfir komandi vikum og mánuðum.

Áfram Haukar!

Magnús Gunnarsson,

formaður Knattspyrnufélagsins Hauka.