Stórleikur á fimmtudaginn, Selfoss – Haukar

HaukarÁ fimmtudaginn næstkomandi verður sannkallaður stórleikur í 1.deildinni þegar toppliðið í 1.deildinni, Selfoss tekur á móti Haukum sem sitja í 2.sæti deildarinnar þremur stigum á eftir Selfoss.

Leikurinn á Selfossi hefst klukkan 20:00. Leikurinn er liður í 10.umferð 1.deildarinnar. Bæði lið hafa byrjað mótið mjög vel en þau hafa það sameiginlegt að hafa misst mikið af mannskap frá síðasta tímabili en hafa komið skemmtilega á óvart og spilað miklan sóknarbolta enda hafa bæði lið skorað 19 mörk en ekkert lið hefur skorað fleiri mörk í deildinni. 

Eins og flestir Haukastuðningsmenn hafa tekið eftir hefur mikið verið um meiðsli á mönnum á tímabilinu en flest meiðsli taka enda og hafa nokkur ný andlit sést á æfingum liðsins í vikunni eftir að hafa verið frá í nokkra daga/vikur vegna meiðsla og því aldrei að vita hvort að nokkri leikmenn snúi til baka í hópinn á fimmtudaginn. 

Haukaliðið reið ekki feitum hesti frá viðureignum sínum gegn Selfossi á síðasta tímabili og tapaði báðum leikjum sínum gegn þeim en Haukaliðið hefur sýnt allt annað á þessu tímabili en sést hefur til liðsins undanfarin ár og ef áframhald verður á því, mætti Haukafólk því búast við að stigafjöldinn í viðureignum Hauka gegn Selfossi á þessu tímabili verður ívið meiri.

Það er nánast skyldu mæting fyrir Haukafólk á fimmtudaginn en veðurspáin er mjög jákvæð, sól og góður hiti verður á Selfossi og því kjörið fótboltaveður. Við hvetjum því alla til að taka sunnudagsrúntinn fyrr en vanalega og skella sér á Selfoss á fimmtudaginn, 9.júlí.