Í kvöld er stórleikur framundan í körfunni þegar Grindavík kemur í heimsókn í undanúrslitum Poweradebikarsins í karlaflokki og hefst leikurinn kl. 19:15.
Karlalið Hauka í körfuknattleik hefur ekki komist í undanúrslit síðan árið 2000 og urðu bikarmeistarar síðast 1996 eða fyrir 15 árum síðan og er því löngu komin tími á að liðið komist í Höllina.
Hvetjum við alla Hafnfirðinga til að mæta á leikinn og styðja strákana til sigurs, við Hafnfirðingar eigum bara eitt körfuboltalið og verðum því öll að standa þétt á bakvið það.
Haukaliðið er gríðarlega ungt og efnilegt og hefur komið skemmtilega á óvart í Iceland Express deildinni þar sem það situr í 5. sæti og hefur verið að spila mjög skemmtilegan körfubolta. Þegar liðið hóf keppni í úrvalsdeildinni í haust áttu leikmennirnir ekki marga leiki að baki í úrvalsdeild og því lítil reynsla í liðinu, en ungu strákarnir hafa sýnt að þeir eru alveg fullmótaðir til að takast á við bestu lið landsins og bera enga virðingu fyrir einhverjum „reynsluboltum“, þeir mæta í alla leiki til að sigra og leggja sig alltaf 100% fram.
Þjálfarar liðsins, Haukamennirnir Pétur og Ívar, hafa náð að byggja upp mjög skemmtilegt lið þar sem áherslan er að spila hraðan og skemmtilegan körfubolta og byggja upp á uppöldum Haukastrákum, reynsla þeirra í úrvalsdeild er gríðarleg og hafa náð að miðla henni til ungu strákana.
Vonumst við til að sjá sem flesta á Ásvöllum í kvöld til að styðja strákana til sigurs. ÁFRAM HAUKAR !!!
Haukakveðja,
Baldur Óli Sigurðsson,
formaður meistaraflokksráðs karla.