Stórsigur Hauka – Inge frábær

Semaj Inge var með stórleik og skoraði 46 stig í fyrsta leik sínum með HaukumHaukar unnu stórsigur á ÍA í kvöld í 1. deildinni í körfu. Lokatölur leiksins 131-79 heimamönnum í vil. Semaj Inge spilaði sinn fyrsta leik fyrir Hauka í kvöld og það má segja að hann hafi stimplað sig hressilega inn í Haukaliðið en hann skoraði 46 stig og tók 11 fráköst. Hann skoraði körfur úr öllum regnbogans litum og vakti frammistaða hans mikla gleði meðal stuðningsmanna Hauka. Var hann í leikslok valinn maður leiksins af stuðningsmannaklúbbi Hauka Haukum í horni.

Haukaliðið var sterkari á öllum sviðum leiksins eins og lokatölurnar gefa til kynna en um miðjan annan leikhluta leiddu Haukar 37-31 en þegar komið var að hálfleik leiddu þeir rauðu 63-41.

Í seinni hálfleik juku Haukar muninn enn meir og voru komnir yfir 100 stiga múrinn í lok þriðja leikhluta. Höfðu Haukar að lokum 52 stiga sigur 131-79.

Stigahæstur Haukamanna var Semaj Inge með 46 stig og Sævar Haraldsson skoraði 12 stig. Allir leikmenn Hauka komust á blað í leiknum.

Eftir þrjá tapleiki í röð eru Haukar komnir á skrið og er tilkoma Semaj mikill happafengur fyrir félagið.

Næsti leikur Hauka er gegn Þór Þ. eftir viku í Þorlákshöfn.

Staðan í 1. deild 

Umfjöllun um leikinn á Karfan.is

Myndasafn úr leiknum á Karfan.is