Stefán Rafn Sigurmannsson til Rhein Neckar Löwen

Stefán Rafn í leiknum gegn Aftureldingu. Þeim síðasta fyrir Hauka í bili. Mynd:sport.is

Stefán Rafn Sigumannsson,  einn af lykil leikmönnum Hauka í meistaraflokki félagsins í handknattleik, hefur gengið til liðs við þýska úrvalsdeildarliðið Rhein-Neckar Löwen. Stefán Rafn hefur verið einn af bestu leikmönnum Hauka í N1 deildinni í vetur og  var nýverið valinn besti leikmaður 1.-7. umferðar deildarinnar.  Nú bætist enn ein rósin í hnappagat þessa unga leikmanns, sem fær nú tækifæri að spreyta sig á meðal þeirra bestu í Þýskalandi.  Það er mikill heiður að fá tækifæri til að spila með Rhein-Neckar Löwen, undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar, f.v. landsliðþjálfarar, en Rhein-Neckar Löwen er sem stendur í efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. 

Stefán Rafn hefur æft og spilað handbolta með Haukum allan sinn feril og  er góð fyrirmynd hinna  fjölmörgu ungu iðkenda félagsins. Þá er árangur Stefáns Rafns, enn  ein sönnun þess að öflugt starf handknattleiksdeildar Hauka  á undanförnum árum  er að bera ríkulegan ávöxt. 

Haukar óska Stefáni Rafni hjartanlega til hamingju með frábæran árangur og óska honum alls hins besta með stórliðinu Rhein-Neckar Löwen.