Stórkostlegur árangur kkd. Bæði lið í úrslitum Dominos deildar.

haukar karfaStrákarnir tryggðu sér sigur á Króknum í gærkvöldi í æsispennandi leik þar sem úrslitin réðust á síðustu sekúndunum og tryggðu sér þar með sigur í einvíginu á móti sterku lið Tindastóls og tryggðu jafnfram sæti í úrslitum Dominos deildar karla.

Leikurinn var æsispennandi frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á að leiða allan leikinn þar sem heimavöllur Stólanna var stútfullur og stemningin og lætin eftir því. Síðasta mínútan var ekki fyrir hjartveika, Tindastóll leiddi með tveim stigum er rétt rúm mín. lifði leiks en Finnur setti gott skot af kantinum til að jafna leikinn og Haukar stöðvuðu stólann í næstu sókn þeirra. Haukar fóru í sókn sem endaði með því að brotið var á hinum unga og efnilega Kára Jónssyni og gerði hann sér lítið fyrir og setti bæði vítin niður. Stólarnir höfðu 23 sek. til að jafna, eða að sigra með 3ja stiga skoti. Þeir létu tíman ganga niður og sóttu svo á körfuna er um 8 sek. voru eftir. Brandon varði skot frá Stólunum en þeir náðu frákastinu og hentu boltanum út á Helga Frey sem setti ævintýralegt 3ja stig skot niður en sem betur fer fyrir Haukana þá var tíminn liðinn og fögnuður fjölmargra stuðningsmanna Hauka voru gríðarleg.

Stelpurnar höfðu deginum áður tryggst sitt sæti í úrslitum með ótrúlega öruggum sigri á Grindavíkur stúlkum og var endurkoma stelpnanna einstök. Eftir að hafa lent 2-0 undir sýndu stelpurnar úr hverju þær eru gerðar og unnu næstu þrjá leiki og tryggðu sæti sitt í úrslitum Dominos deildar kvenna. Ótrúlegur viðsnúningur hjá stelpunum sem fer í sögubækurnar.

Bæði mfl. karla og kvenna því komin í úrslit. Einstakur árangur og það á 85 ára afmæli félagsins sem var í gær.

Stelpurnar hefja leik næsta laugardag, þann 16. apríl, kl. 17:00 í Schenkerhöllinni, en þá koma Snæfellsstúlkur i heimsókn. Búast má við frábærum leikjum hjá þessum frábæru liðum, en þessi tvö lið hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið í deildinni í vetur. Við hvetjum auðvita alla til að fjölmenna á leikinn og taka þátt í veislunni.

Ekki er orðið ljóst við hverja strákarnir spila en það kemur í ljós í kvöld eða á föstudag, ef þarf oddaleik í einvígi KR – Njarðvíkur.

Áfram Haukar.