Stórleikur í handboltanum

haukibvkkÞað verður sannkallaður stórleikur í Olísdeild karla annað kvöld, fimmtudagskvöld, þegar að Haukamenn fá Eyjamenn í heimsókn en leikið verður í Schenkerhöllinni kl. 18:00.

Þessi leikur er fyrsti leikurinn í 2. umferð deildarinnar en liðin mættust í fyrsta leik tímabilsins en þá höfðu Eyjamenn betur 34 – 28. Bæði lið náðu ekki að sýna sitt besta andlit í fyrstu umferðinni og sitja liðin í 6. og 7. sæti deildarinnar þar sem ÍBV hefur 9 stig úr leikjunum 9 á meðan Haukar hafa 8 stig úr þessum 9 leikjum.

Smá breytingar áttu sér stað á Haukaliðinu í hléinu en þá kom Grétar Ari Guðjónsson til baka úr láni frá Selfoss á meðan að Einar Ólafur Vilmundarson fór í hina áttina. Bæði lið áttu svo tvo fulltrúa hvort í A-landsliði karla í nýliðnu landleikjahléi. Eyjamenn áttu Kára Kristján Kristjánsson og Theodór Sigurbjörnsson á meðan Haukar áttu Janus Daða Smárason og Grétar Ara Guðjónsson en þar af auki var Giedrius Morkunas einnig með landsliði Litháen í pásunni.

Það má því segja að tvö hörkulið séu að mætast og því um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna og sjá flottan handboltaleik en þessi lið hafa eldað grátt silfur saman síðustu ár og það er ekkert að fara að breytast núna. Það er því um að gera að skella sér í Schenkerhöllina kl. 18:00 á morgun, fimmtudag, og styðja strákana í baráttunni. Einnig er vert að minna á það að Haukasetlpurnar eiga leik í bikarnum í kvöld, miðvikudagskvöld, þegar að þær fara upp í Austurberg og mæta þar liði ÍR kl. 19:30. Áfram Haukar!