Haukar fara í Breiðholtið í kvöld og munu etja kappi við ÍR í gríðarlega mikilvægum leik fyrir bæði lið og nú þarf Haukafólk að standa saman og fjölmenna í Seljaskóla og hvetja strákana til sigurs.
Bæði liðin eru í neðri hlutanum en geta með sigri klifið upp töfluna og gert atlögu að góðu sæti í úrslitakeppninni og jafnframt skilið sig frá fallbaráttunni. Haukar unnu öruggan heimasigur á ÍR í fyrri hluta Dominos deildar og er því sigur mjög mikilvægur þar sem Haukaliðið mun jafna ÍR í 8-9 sæti og jafnframt eiga þá innbyrðis á ÍR sem kemur sem vel í jafnri deild.
Haukar unnu síðasta leik á heimavelli á móti Þór Ak. og sýndu þá að margt er í liðið spunnið, varnarleikurinn og baráttan var til fyrirmyndar og skilaði mikilvægum sigri. Nú þarf liðið að sýna styrk og komast á sigurbraut og taka nokkra leiki í röð og tryggja sig inn í úrslitakeppnina. Liðið hefur verið að styrkjast, en leikmenn hafa verið að koma til baka úr meiðslum, Kristján Leifur mun stíga aftur á parketið en hann hefur verið meiddur núna í rúma tvo mánuði og munar um minna þar sem Kristján var að spila gríðarlega vel fyrir meiðsli og sýna að hann væri einn besti stóri maður deildarinnar. Að auki hefur liðið bætt við sig erlendum leikmanni, Cedrick Bowen, sem spilaði með KR fram að áramótum og hefur hann verið að koma vel inní leik liðsins. Liðið er því búið að hækka töluvert frá síðasta leik.
Strákarnir eru ákveðnir í því að halda áfram á sigurbraut og tryggja sig inní úrslitakeppnina.
Við hvetjum allt Haukafólk til að mæta í Seljaskóla og hvetja strákana til sigurs í þessum gríðarlega mikilvæga leik.