Sveinn Ómar rífur fram skóna

Sveinn Ómar Sveinsson verður með Haukum í kvöld þegar þeir mæta FSu í 1. deild karla í kvöld á Selfossi. Þetta staðfesti Pétur Guðmundsson þjálfari í samtali við haukar.is.

Sveinn spilaði við góðan orðstír með Haukaliðinu en þurfti frá að hverfa vegna meiðsla. Hann hefur ekki séð sér fært að spila með meistaraflokki en hefur spriklað með B liði Hauka þar sem hann hefur verið lykilmaður og vann með þeim Íslandsmeistaratitil á síðustu leiktíð.

Þegar í ljós kom að Helgi Björn Einarsson yrði frá vegna meiðsla næstu viku eða vikur leitaði Pétur til Sveins og bauð hann fram aðstoð sína.

 

„Já það er rétt hann er í hópnum,“ sagði Pétur og bætti við: „Ég hitti Svenna og ætlaði að fá hann til að hlaupa í skarðið fyrir Helga en hann var fyrri til og bauð fram aðstoð sína, hann verður því með í kvöld og í næstu leikjum en óvíst er um framhaldið.“

„Helgi Björn verður frá í eina til fjórar vikur en hann er með svokallað „jumpers knee“ og þarf að jafna sig á því,“ bætti Pétur við.

Haukar mæta sem fyrr segir FSu í Iðu, Selfossi, í kvöld í fyrsta leik liðsins á þessu tímabili og vonandi sjá flestir Haukamenn sér fært að mæta.