Táningurinn tryggði Haukum sigur í fyrsta leik

Björgvin StefánssonÞað var ekki slæm meistaraflokks byrjunin hjá hinum unga og efnilega, Björgvini Stefánssyni sem á laugardaginn lék sinn fyrsta deildarleik með meistaraflokki. Leikið var gegn Víking Ólafsvík í Ólafsvík og fór svo að mark Björgvins í seinni hálfleik varð sigurmark Hauka í leiknum.
Næsti leikur Hauka er heimaleikur gegn hinum nýliðunum í deildinni, lærisveinum Guðjóns Þórðarssonar og samherjum Jónmunds Grétarssonar, fyrrum leikmanns Hauka, við erum að tala um Vestfirsku víkingana í BÍ/Bolungarvík en sá leikur fer fram næsta laugardag kl. 14:00.

En að leiknum í Ólafsvík á laugardaginn. Byrjunin í deildinni var engin óskabyrjun því heimamenn úr Ólafsvíkinni skoruðu fyrsta mark leiksins eftir að skot frá Dominik Bajda fór í varnarmann, stöngina og síðan inn fyrir marklínuna, óverjandi fyrir Daða Lárusson í markinu.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og skiptust liðin á að koma sér í hálffæri en hvorugt liðanna skoruðu fleiri mörk í fyrri hálfleiknum og staðan í hálfleik því 1-0 fyrir Víking Ólafsvík.
Haukarnir mættu hinsvegar mjög vel stemmdir í seinni hálfleiknum og uppskáru mark snemma en þar var að verki, Úlfar Hrafn Pálsson sem stangaði boltann í netið. Þetta mark gaf Haukum auka púst og fimm mínútum eftir jöfnunarmarkið, eða á 57. mínútu kom Björgvin Stefánsson síðan Haukum yfir í leiknum með stórglæsilegu marki. Hann átti viðstöðulaust skot að marki Víkings fyrir utan teig sem gjörsamlega söng í netinu og hefði líklega sigrað Eurovision seinna um kvöldið, svo gott var þetta.
Það sem eftir lifði leiks reyndu heimamenn að gera sitt besta til að jafna leikinn en uppskáru lítið sem ekkert og því fór svo að Haukar fóru með þrjú stig heim úr Ólafsvíkinni og byrja því tímabilið mjög vel.

Við minnum alla á að fjölmenna á næsta heimaleik Hauka á laugardaginn en einhver rosa dagskrá verður í kringum þann leik, sem verður auglýst síðar í vikunni hér á haukar.is