Það mátti litlu muna að Haukar hefðu lagt Grindvíkinga í kvöld þegar liðin mættust í fyrstu umferð Lengjubikarsins í Grindavík. Bæði lið voru að spila fínan bolta og var ekki að sjá að árlegur haustbragur væri á liðinum eins og oft vill vera í þessari keppni. Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu og má í raun segja að óheppni í bland við pínu klaufaskap hafi orðið þess valdandi að Grindavík vann þriggja stiga sigur á Haukum 89-86.
Semaj Inge var besti maður Hauka í annars frekar jöfnu liði en allir sem komu við sögu í Haukaliðinu komust á blað og voru að spila á lögum köflum góðan körfubolta. Gerald Robinson var ískaldur í sókninni en átti fínan leiki í vörn og skilaði tók ein 15 fráköst.
Inge lagði grunn að varnarleik Hauka þegar hann varði skot Páls Axels Vilbergssonar í fyrstu sókn heima manna. Grindvíkingar byrjuðu annars leikinn af miklum krafti og náðu níu stiga forystu strax í fyrsta leikhluta 26-19 en Haukar bitu frá sér og minnkuðu muninn fyrir loka leikhlutans sem endaði 26-22.
Haukar komust þremur stigum yfir í öðrum leikhluta og skiptust liðin á að hafa forystu út hlutan. Haukar leiddu með einu stigi í hálfleik 44-45 og var ljóst að þeir ætluðu sér að selja sig dýrt í sínum fyrsta fyrirtækjabikarleik í fjögur ár.
Þegar komið var inn í lok fjórða leikhluta var allt á nálum. Haukar leiddu með einu stigi þegar innan við tvær mínútur voru eftir og Grindavík var í sókn. Sókn þeirra fjaraði út og Haukar héldu til sóknar sem skilaði ekki körfu. Brotið var á leikmanni Grindavíkur sem fór á vítalínuna og setti niður bæði skot sín og snéri stöðunni úr 85-86 í 87-86. Haukar héldu til sóknar en vörn Grindvíkinga hélt og þeir náðu boltanum. Aftur var brotið á heimamanni sem setti niður bæði vítin og staðan því 89-86 og aðeins fimm sekúndur eftir. Haukar tóku leikhlé og byrjuðu því með boltan á miðju. Boltinn barst í hendurnar á Hauki Óskarssyni sem hafði verið heitur fyrir utan en skot hans geigaði og Grindvíkingar fögnuðu sigri.
Haukaliðið barðist vel á báðum endum vallarins en því miður þá fór sem fór. Þrátt fyrir mörg klikkuð skot og þá sérstaklega á vítalínunni héldu Haukar sér inn í leiknum sem lýsir hvað best baráttu þeirra í leiknum. Eins og fyrr segir þá var Gerald Robinson ískaldur í sókninni en það verður áhugavert að fylgjast með honum í komandi leikjum og má segja að Haukar hafi alveg átt hann inni.
Semaj Inge skoraði 32 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Haukur Óskarsson var með 11 stig. Sævar Ingi Haraldsson gerði 10 stig og Gerald Robinson 9 stig og 15 fráköst.