Toppslagur í N1 deild kvenna á föstudaginn – Haukar-Valur

Sannkallaður toppslagur fer fram á Ásvöllum í N1 deild kvenna föstudaginn 9. janúar nk. þegar Haukar taka á móti Val. Haukar eru í efsta sæti deildarinnar en Valur í því þriðja. Leikurinn hefst kl. 19:00. Handknattleiksdeild Hauka hvetur handknattleiksunnendur til að hefja nýtt ár með því að fjölmenna á leik þessara frændliða.

Haukar unnu fyrri leik liðanna í Vodafone-höllinni í október með tveimur mörkum. Leikmenn liðanna hafa farið mikinn í vetur. Berglind Íris Hansadóttir, markvörður Vals, var nýlega kjörin handknattleikskona ársins af HSÍ. Hanna Guðrún Stefánsdóttir, leikmaður Hauka, er markahæsti leikmaður mótsins en hún hefur gert 111 mörk í 11 leikjum N1 deildarinnar í vetur. Hanna var kjörinn handknattleikskona Hauka árið 2008.

Í kjölfar kvennaleiksins fer fram hörkuleikur í 1. deild karla þar sem Haukar U taka á móti Aftureldingu en þessi lið eru jöfn að stigum í 4. og 5. sæti deildarinnar. Það er því hægt að eiga góða kvöldstund á Ásvöllum á föstudaginn.

Mynd: Stelpurnar í meistaraflokknum hefja árið á stórleik.stefan@haukar.is