Knattspyrnudeild Hauka hefur gengið frá lánssamningi við tvo unga og efnilega leikmenn sem koma báðir á Ásvelli frá Fylki í Bestu deildinni.
Haukafólk ætti að kannast býsna vel við Hall Húna Þorsteinsson en hann lék upp yngri flokkana með Haukum áður en hann gekk í raðir Fylkis fyrir tveimur árum síðan.
Hann lék einn leik í Bestu deildinni með Fylkismönnum sumarið 2021 undir stjórn Atla Sveins Þórarinssonar, núverandi þjálfara Hauka. Í fyrra spilaði Hallur níu leiki í Lengjudeildinni og skoraði eitt mark er Fylkir fór með sigur af hólmi í þeirri deild.
Hallur, sem er 19 ára gamall varnarmaður, er spenntur fyrir því að mæta aftur í uppeldisfélag sitt.
Hann segir: ,,Mér líst mjög vel á sumarið sem framundan er. Við stefnum á toppbaráttu og að fara upp. Ég var í burtu í tvö ár og það er mjög fínt að koma aftur á Ásvelli. Hér líður mér mjög vel.”
Haukar hafa einnig samið við Aron Örn Þorvarðarson um að koma á láni frá Fylki. Aron er tvítugur hægri bakvörður sem lék tvo leiki með Fylki er liðið komst upp úr Lengjudeildinni í fyrra.
Aron lék einnig á láni með Elliða í 3. deild síðasta sumar og skoraði eitt mark í átta leikjum þar.
,,Það er gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég stefni á að hjálpa Haukum að komast upp í Lengjudeildina. Ég er spenntur fyrir því að fá að spila hérna. Þetta er góður hópur og ég held að þetta verði flott hjá okkur,” segir Aron.
Haukar fagna komu þessara tveggja leikmanna og bindur miklar vonir við þá fyrir tímabilið 2023.