Undanúrslit í Eimskipsbikar karla á laugardag

Aron Kristjánsson ætlar sér sigur á laugardaginnMeistaraflokkur karla tekur á móti HK á laugardag í undanúrslitum Eimskipsbikarsins en leikurinn hefst kl. 16 á Ásvöllum. Sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar er í húfi en það er orðið alltof langt síðan Haukar fögnuðu síðast sigri í þessari skemmtilegu keppni. Allt Haukafólk þarf að leggjast á eitt til að tryggja Haukadag í Höllinni í lok mánaðarins og styðja við bakið á strákunum á laugardaginn.

Haukar eiga harma að hefna því HK er eina liðið sem hefur sigrað Hauka í N1 deildinni í vetur en það gerðist í síðasta leik fyrir jól í Digranesinu. Það má því búast við hörkuleik enda bæði lið staðráðin í að tryggja sér sæti í úrslitum bikarsins. HK sigraði Fram með einu marki í síðasta leik í deildinni og Haukar unnu eftirminnilegan sigur á FH sem hefur vonandi eflt sjálfstraustið ennfrekar hjá strákunum. Það er nefnilega þannig í bikarnum að sætaröðun í deild og úrslit fyrri viðureigna hafa lítið gildi þegar allt er undir úrslitum eins leiks. Þess vegna er bikarinn líka svona skemmtilegur.

Aron Kristjánsson hefur verið einstaklega sigursæll þjálfari hjá Haukum en bikarmeistaratitill er enn ekki að finna á ferilskrá kappans og er ljóst að hann ætlar sér sigur á laugardaginn gegn Kópavogsdrengjunum.

ALLIR Á ÁSVELLI!