Undanúrslitin byrja í kvöld

Eftir þónokkra pásu er loksins komið að fyrsta leik í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta þegar að Haukastrákarnir halda til Vestmannaeyja og etja þar kappi við heimamenn kl. 18:30 í kvöld. Þessi lið hafa marga hildina háð síðustu ár og verður engin breyting á í þetta skiptið en nokkur tening er á milli liðanna og má því búast við hatrammri baráttu tveggja hörkuliða um sætið í úrslitum en vinna þarf 3 leiki til þess að tryggja sig þangað.

Þar sem að það er stoppdagur hjá Herjólfi er ekki möguleiki fyrir okkur að koma okkar fólki til Eyja og heim aftur í kvöld og verða strákarnir því að klára dæmið án stuðnings Haukafólks. En þegar að Eyjamenn koma í heimsókn í 2. leik liðanna í næstu viku verður Haukafólk því að fylla Schenkerhöllina. Planið er svo að hafa hópferð á 3. leikinn sem leikinn verður 5. maí sem er laugardagur og því ætti okkar fólk að geta fjölmennt á þann leik en meira um það síðar.

Fyrst þarf að klára leikinn í kvöld sem byrjar kl. 18:30 í Eyjum og verður hann sýndur á Stöð2 Sport fyrir Haukafólk upp á landi. Það er því um að gera fyrir Haukafólk að fylgjast með þar og öskra á strákana í gegnum sjónvarpið. Áfram Haukar!