Þær Emilía Katrín Matthíasdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir og Thelma Melsteð hafa allar framlengt samninga sína við Hkd. Hauka og munu þær leika með meistaraflokki félagsins næstu árin.
Allar eru þær hluti af 2004 árgangi félagsins sem vann bikar- og deildarmeistaratitil á liðnu tímabili. Þær hafa allar verið hluti af meistaraflokki félagsins síðustu tímabil og hafa þær verið að fá fleiri og fleiri mínútur til að sanna sig. Einnig eiga þær allar landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Rakel og Thelma eru núna hluti af U-18 ára landsliði Íslands sem fer út til Norður-Makedóníu í lok júlí til að taka þátt í HM U-18 ára landsliða og því mikið um að vera hjá þeim í sumar.
Það er mikið gleðiefni að ungir og efnilegir leikmenn félagsins framlengi samninga sína. Það er því með sanni hægt að segja að framtíðin sé björt á Ásvöllum. Áfram Haukar!