Engu var líkara en að um stórviðburð væri að ræða á Ásvöllum sl. laugardagsmorgun þegar sá sem hér skrifar kom akandi að Íþróttamiðstöðinni, en öll bílastæði voru hér upptekinn. Nei, ástæðan var ekki landsleikur heldur var leikjaskóli barnanna í fullum gangi. Aldrei hefur annar eins fjöldi barna á aldrinum 2 til 5 ára verið skráður í leikjaskólann, en um 120 börn mæta hér með foreldrum sínum og á stundum fylgja systkini með. Það er ánægjulegt að sjá ungviðið og foreldra þeirra streyma í Íþróttamiðstöð Hauka til að gefa börnum sínum tækifæri til að taka þátt í uppbyggilegum íþróttaþrautum og fá að skottasta hér um sali, en bæði handboltasalurinn og Ólafssalur eru nýttir fyrir leikjaskólann. Ásóknin ber þess merki að þróttmikil uppbygging í nærhverfum kallar á að innviðir til þjónustu við íbúana séu sem bestir. Það má svo alveg búast við að einhver þeirra einstaklinga sem hér mæta í leikjaskólann eigi eftir að gera garðinn frægan, hvort heldur er með landsliðum okkar eða á öðrum vettvangi í okkar ágæta þjóðfélagi.
Áfram Haukar.