Verða Haukar Íslandsmeistarar á morgun ?

Stóra spurningin er sú, verða Haukar Íslandsmeistarar karla í handknattleik á morgun, þegar þeir heimsækja Valsmenn að Hlíðarenda. Haukar eru yfir í viðureigninni 2-1 en það lið sem verður fyrr undan að sigra þrjá leiki verða Íslandsmeistarar.

Leikurinn hefst klukkan 20:15 að þeirri ástæðu að leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV, en það á ekki að stöðva neinn Haukamann til að mæta í Vodafone-höllina enda fátt skemmtilegra en að fagna Íslandsmeistaratitlinum.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem kalla sig Haukamenn að fjölmenna í Vodafone-höllinni á morgun og um að gera að mæta tímanlega og mynda flotta og góða stemmingu fyrir leik.

Til að svara fyrirsögninni og fleiri spurningum fengum við Frey Brynjarsson leikmann Hauka í stutt spjall.

Fyrsta spurningin var einföld, verða Haukar Íslandsmeistarar 2008/2009 á morgun í Vodafone-höllinni ?

Það er góð spurning. Við höfum verið að vinna í allan vetur að því markmiði og á morgun getum við náð því markmiði. Ég geri mér vonir um að við getum klárað þetta á morgun 5.maí þar sem ég á einmitt afmæli. Þetta verður hörkuleikur milli tveggja góðra liða.

Haukaliðið er 2-1 yfir í einvíginu eins og greint var frá hér að ofan, en báðir sigurleikirnir hafa sigrast nokkuð þægilega, leggur Aron Kristjánsson þjálfari Hauka útileikina einhvernvegin öðruvísi upp en heimaleikina ?

Nei við erum 2-1 yfir vegna þess að við höfum unnið vel fyrir því. Í þessum tveimur leikjum sem við höfum unnið hefur liðið spila vel saman sem ein heild. Leikurinn á morgun er ekkert öðruvísi en hinir leikirnir, við verðum að hafa metnað, baráttugleði, góðan liðsanda og sigurhugsun. Það skilar okkur sigri.

Haukaliðinu hefur ekkert gengið alltof vel í Vodafone-höllinni en þeir sigruðu reyndar fyrsta leikinn sem spilaður var þar í fyrstu umferðinni í fyrra. Hvernig líður Freyr Brynjarssyni að spila í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda ? , En Freyr er eins og flestir vita gamall Valsari…

Mér líður ágætlega að spila þar. Hef reyndar ekki spilað vel þar í vetur en það verður breyting á því á morgun. Þetta var minn heimavöllur í mörg ár og ég ætti að þekkja mig vel til þarna þó svo að það sé komið nýtt íþróttahús. Völlurinn er á sama stað og sá gamli.

Að lokum spurðum við Frey að því hvort að þetta væri ekki sá leikur sem enginn Haukamaður ætti að láta framhjá sér fara ?

Þetta er klárlega leikur sem engin haukamaður ætti að láta fram hjá sér fara. Við komum til með að leggja okkur alla fram í þessum leik og með góðum stuðningi haukaáhorfenda þá löndum við titlinum á morgun. Áfram Haukar.

Allir á völlinn – ÁFRAM HAUKAR!