Nýverið samþykkti aðalstjórn Hauka að taka þátt í verkefni sem miðar að því að bæta andlega heilsu iðkenda. Bára Fanney Hálfdanardóttir, Kristín Fjóla Reynisdóttir og Gerður Guðjónsdóttir hafa umsjón með verkefninu og er það styrkt af Minningarsjóði Ólafs Rafnssonar. Bára Fanney er sálfræðingur, Kristín Fjóla mun útskrifast úr læknisfræði í vor og Gerði þekkja allir Haukamenn en hún var eiginkona Ólafs Rafnssonar heitins. Börnin þeirra hafa spilað fyrir hönd Hauka og þekkir hún því vel starfsemina innan félagsins. Bára Fanney og Kristín Fjóla hafa unnið að fræðslu fyrir þjálfara, foreldra og iðkendur. Markmiðið með verkefninu er að allir þjálfarar félagsins fræðist um andlega heilsu iðkenda og mikilvægi hennar. Fræðslukvöld verða einnig fyrir foreldra iðkenda.
Að þessu sinni mun áherslan vera á unglingana okkar og munu þau sitja tvo fyrirlestra þar sem fjallað verður um andlega heilsu, neikvæðar hugsanir og markmiðasetningu í íþróttum og gera verkefni því tengdu. Eftir fyrirlestrana verður boðið upp á einstaklingsráðgjöf fyrir þá sem það kjósa. Andleg heilsa og vellíðan íþróttamanna skiptir afar miklu máli og hefur sem betur fer verið meira í umræðunni á síðustu misserum en áður. Með þessu verkefni vonast félagið að iðkendur Hauka finni bæði fyrir stuðningi og skilningi á líðan þeirra hvort sem er um að ræða andleg eða líkamleg líðan.